27. september 2009

Gunnar tapar naumlega á ADCC

Gunnar Nelson féll úr keppni í gær í ADCC bardagakeppninni sem haldin er í Barcelona um helgina. Gunnar féll eftir naumt tap gegn fyrrum heimsmeistara og Ameríkumeistara, Bandaríkjamanninum James Brasco.

Eftir venjulegan leiktíma og tvöfalda framlengingu voru
keppendur hnífjafnir og því réð dómaraúrskurður úrslitum, að því er segir í fréttatilkynningu. Flestir héldu að Gunnari yrði veittur sigurinn þar sem andstæðingur hans hafði tvisvar sinnum fengið aðvörun fyrir sóknarleysi en Gunnar aldrei.

Öllum á óvörum úrskurðuðu dómararnir hins vegar Bandaríkjamanninum í vil. Var það mál manna að þar hefði ferill hans haft mest áhrif en ekki frammistaðan gegn Íslendingnum unga.

James Brasco féll síðan úr keppni eftir jafn nauman ósigur gegn sigurstranglegasta keppanda flokksins, Braulio Estima, margföldum heims- og Evrópumeistara. Gunnar getur því vel við unað og stóð
sig frábærlega gegn afar erfiðum andstæðingi.

Gunnar heldur á mánudag til New York þar sem hann tekur þátt í Pan Amercan mótinu sem fram fer í New York um næstu helgi. Mótið í New York er eitt af þremur stærstu mótum í heimi í uppgjafarglímu.

27.9.2009