17. maí 2011

Fimm íslenskir keppendur á ADCC European Trials um helgina


Fimm Íslendingar taka þátt í undankeppni ADCC í Evrópu fer fram í Turku í Finnlandi nk. laugardag, 21. maí. Sigurvegari hvers þyngdarflokks vinnur sér þátttökurétt á ADCC 2011 sem fram fer í Englandi að þessu sinni, dagana 24.-25. september. Af þessum 5 eru 4 úr keppnisliði Mjölnis en það eru þau Þráinn Kolbeinsson (-99), Sighvatur Magnús Helgason (-88), Axel Kristinsson (-66) og Auður Olga Skúladóttir (+60). Þá mun Arnar Freyr Vigfússon (-77) frá Combat Gym einnig keppa í undankeppninni.

Gunnari Nelson hefur þegar verið boðin þátttaka í ADCC 2011 og hann þarf því ekki að taka þátt í undankeppninni. Gunnar mun keppa í -77kg flokki og verður þar í félagskap kappa á borð við Marcelo Garcia, Leonardo Vieira, Kron Gracie, JT Torres, Augusto Mendes, Jorge Britto, Murilo Santana, Enrico Cocco, Vagner Rocha, Takanori Gomi og vini sínum Gregor Gracie, svo fáeinir séu nefndir, en 16 keppendur eru í hverju þyngdarflokki. Þess má geta að Gunnar Nelson hlaut einnig boð á keppnina fyrir tveimur árum (2009). Hann varð þá fyrsti Íslendingurinn til að taka þátt í þessari gríðarlega erfiðu keppni og vakti mikla athygli með því að lenda í fjórða sæti í opnum flokki m.a. með fræknum sigrum á köppum eins og Jeff Monson og David Avellan.

Eins og margir vita er ADCC öflugasta og erfiðasta uppgjafarglímumót heims en það er haldið annað hvert ár og af flestum talið óopinbert heimsmeistaramót í uppgjafarglímu (submission grappling). Mótið var upprunalega haldið í Abu Dhabi en hefur undanfarin ár verið haldið víðsvegar um heiminn og verður nú haldið á slóðum Hróa hattar, í Nottingham á Englandi. Þetta er í annað sinn sem mótið er haldið í Evrópu en síðasta keppni var haldin í Barcelona árið 2009.